Flott ræða á mótmælum á Ísafirði í dag

Ég mætti á mótmælin hér á Ísafirði í dag og hlýddi þar á flott fólk flytja flottar ræður. Þar stóð upp úr ræða nöfnu minnar, Hörpu Henrysdóttur. Ég tók mér bessaleyfi og afritaði hana af síðu mömmu hennar sem var svo góð að setja hana þar inn, og birti hana hér fyrir þá sem ekki voru á staðnum :

Ég skil ekki neitt - en ég játa mig samt ekki heimska!

Fjögurra ára dóttir mín rekur bakarí undir stiganum heima hjá afa sínum og ömmu þar er hægt að kaupa ósýnilega snúða og ósýnilegar kringlur fyrir ósýnilega peninga. Í september kostaði snúðurinn hundraðkall, kringlan hundraðkall og kókómjólkin kostaði líka hundraðkall, nú er kominn janúar og þrátt fyrir að útsölur ættu að vera í fullum gangi kostar snúðurinn tvo milljarða, kringlan tíu milljarða, kókómjólkin þúsund og tuttugu milljarða og hundraðkall getur þú fengið fyrir skrilljarð. En þetta skiptir mig ekki nokkru máli því við erum ennþá að tala um ósýnilega hluti fyrir ósýnilega peninga, aftur á mótir versnar í því þegar við förum að blanda saman veröldunum tveimur og kaupa raunverulega hluti fyrir ósýnilega peninga.

Á Íslandi hafa ósýnilegir peningar verið í umferð um nokkurt skeið samhliða okkar almennu krónu. Almennar krónur eru notaðar til að borga almenningi laun, kaupa snúð og kókómjólk, borga fyrir leikskólapláss og til að kaupa sér píanó. Ósýnilegu peningarnir eru notaðir til að kaupa og selja hlutabréf og til að borga mönnum í ábyrgðarstöðum gríðarleg laun, þessir ósýnilegu peningar hafa líka verið notaðir til að kaupa kvóta, fjölmiðla, flugfélög og fleira sem var of dýrt fyrir hina almennu krónu, því ef maður á ekki fyrir flugélaginu sem mann virkilega langar í er auðvitað nærtækast að búa til svolítið af peningum og kaupa svo 12 miklu flottari flugfélög. Þetta væri auðvitað alveg yndislega ljúft líf, og var það vafalítið fyrir þá sem þess nutu um stund...

...en svo var komið að skuldardögum og þá kom í ljós að það voru ekki til nógu margar almennar krónur, það var ekki til ein raunveruleg króna á móti hverri einni ósýnilegri krónu og skyndilega eru ósýnilegu peningarnir ekki lengur ósýnilegir, þeir voru orðnir að raunverulegum skuldum.

Hinir ábyrgðarfullu peningaframleiðendur flýttu sér, fremstir í röðina áður en almennu krónurnar myndu klárast til að leysa út launatékkana sína, síðan hefur ekkert spurst til þeirra frekar en tröllanna sem eltu Búkollu og karlsson um árið.

Eftir stendur að ég, afi minn, foreldrar mínir og dætur mínar neyðumst til að hafa það að okkar ævistarfi að greiða fyrir 12,5% hlut furstans af fjarskanistan í ZR2-14 samsteypunni sem hann keypti á spott prís af BST9 hópnum og keisaranum í langtíburtistan, en keisarinn er einmitt þekktur fyrir að hafa haldið við dóttur furstans af fjarskanistan sem nýtti sér ástandið til að stofna skattaparadís í langtíburtistan og greiddi því einungis 1,3% skatt þar þrátt fyrir að vextirnir af öllum ósýnilegu peningunum hans sem lágu á bók slöguðu hátt í verga þjóðarframleiðslu hverginistans!

Þetta hljómar eins og bullusaga og er bullusaga, en svona viðskiptahættir hafa samt sem áður viðgengist á Íslandi í skjóli algjörlega ónýtrar ríkisstjórnar sem nú loksins ætar að lufsast frá, en ekki vegna þess að ráðamönnum finnist þeir hafa gert eitthvað rangt...

Ég vildi að ég gæti sagt upp þessu nýja djobbi! Nýja Harpa gæti byrjað upp á nýtt. Án áhrifa frá furstanum af fjarskanistan.

Ég vil að þjófarnir fari í fangelsi.

Ég vil að rolurnar fari heim til sín.

Ég vil að sömu reglur gildi fyrir alla.

Staðreyndin er sú að við borgum en þjófarnir, þeir leystu út tékkana sína og tékkuðu sig út.

Harpa Henrýsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð

Ágústa (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 21:42

2 identicon

Góð og flott ræða og svo satt. Við fjölskyldan mættum í appelsínugulu á mótmælin á Austurvelli í dag og þvílíkur samhljómur og samstaða. Þetta var eins og vera á tónleikum með Bruce Springsteen(þó ég hafi aldrei verið á tónleikum með honum) þvílík voru lætin. Og það besta var að það kölluðu allir í kór. Um 7000 manns mættu, þetta var æðislegt.

Hulda (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Harpa Oddbjörnsdóttir
Harpa Oddbjörnsdóttir

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband