Sagan mín

Síðan fyrri Kompás þátturinn var sýndur um barnaníðingana hef ég ekki getað hætt að hugsa um hann. Svona menn eru út um allt og kerfið hefur engin úrræði. Þeir koma út í samfélagið aftur engu bættari eftir alltof stutta afplánun fyrir sálarfjöldamorð. Mér finnst ég ekkert geta gert, og þess vegna er ég svo reið. Dómurum þessa lands þykir nægilegt að slá á hendur þeirra og senda þá svo út í samfélagið á ný. Nú, ég hef því ákveðið að halda áfram baráttunni eins og ég hef verið að gera með því að taka þátt í uppbyggingu systursamtaka Stígamóta hér á Vestfjörðum sem hefur fengið nafnið Sólstafir. Þar eru sex vaskar konur með Sunnevu Sigurðardóttur, Stígamótakonu og Vestfirðingi ársins, í fararbroddi, sem hafa hist núna í að verða heilt ár. Um þessar mundir erum við að vinna að því að starta starfseminni fyrir alvöru með því að sækja um styrki til allra helstu fyrirtækja og stofnanna á Vestfjörðum svo unnt sé að huga að húsnæði fyrir okkur og öllum aðbúnaði. Þá ætti að vera hægt að koma einstaklingsviðtölum, fyrirlestrum og annarri almennri ráðgjafaþjónustu sem ætti að vera svo SJÁLFSÖGÐ fyrir alla þolendur kynferðisafbrota hvar sem er á landinu.  Ég hvet alla sem hafa tök á að styrkja starf okkar hjá Sólstöfum.

Mikið ofboðslega þykir mér vænt um þessar stelpur sem eru með mér! Þær eru allar svo klárar og duglegar og einlægar og ég veit ekki hvað og hvað. Ef ég hefði ekki haft þær síðasta árið veit ég það að andlega ástand mitt væri mun verra.     Ég hef einnig ákveðið að fara stuttlega yfir mína sögu sem þolandi kynferðisafbrota í þeim tilgangi að sýna fólki dæmi um áhrif kynferðislegrar misnotkunar á líf þolanda.   Ég var misnotuð af þremur mönnum þegar ég var yngri. Ekki á sama tíma samt. Á tímabili fór ég á hverjum degi í sund í sundlauginni í Bolungarvík, þaðan sem ég er, og mér til ólukku gerði það gamall maður líka sem bjó á elliheimili þar í bæ. Hann var þekktur fyrir það að áreita stelpur í sundi og minnir mig að honum hafi nokkrum sinnum verið bannað að koma í sund en alltaf hleypt aftur í laugina eftir smá tíma. Hann króaði mann af í pottunum úti, káfaði og kyssti. Á þessum tíma var ég líka að bera út Morgunblaðið og þurfti því að banka hjá honum á hverjum degi. Ég átti fáa vini, var gríðarlega einmana og þráði athygli frá einhverjum. Þessi maður  veitti mér mikla athygli og ég fór alltaf inn þegar hann bað mig. Enda borgaði hann mér fyrir með peningum.
Þegar ég var orðin fullorðin brotin sál og að reyna púsla mér saman á Stígamótum þá þorði ég ekki fyrr en eftir langan tíma að viðurkenna að ég fór til hans aftur og aftur, því mér leið eins og hóru. Hann fékk að káfa og ég fékk pening fyrir. Ég var bara lítil stelpa. Þessi maður hætti að misnota mig rétt fyrir fermingu enda flutti hann í burtu í kringum þann tíma. Hann er látinn fyrir mörgum árum.  Hann misnotaði marga og hætti ekki fyrr en hann var kominn í gröfina. 

 


Maður númer tvö var einnig gamall karl sem einnig lét sér ekki nægja að misnota eina stelpu heldur margar í gegnum árin. Af tillitssemi við börn, barnabörn og barnabarnabörn hans mun ég ekki tala um neitt sem gæti leitt til þess að þau þekki hann af þessari lesningu.
Hann misnotaði mig einu sinni. Í jötu. Fáránlegt, ég veit. Ég var bara lítil stelpa og það sem ég man er að á meðan hann athafnaði sig horfði ég út um gluggann og þar fyrir utan sjá ég fagurgrænt gras og lítinn heimalning þannig að þetta hlýtur að hafa verið snemma að vori. Ég einbeitti mér að því að horfa á litla lambið svo ég þyrfti  ekki að hugsa um það sem hann væri að gera. Meira man ég ekki. Ég man hvað hann gerði en mér finnst óþarfi að lýsa því hér. Hann er einnig látinn.

 


Maður númer þrjú var ungur maður. Sonur vinahjóna mömmu minnar og pabba. Ég hef ekki séð þau síðan þau fluttu frá Bolungarvík fyrir mörgum árum.
Íris systir mín sagðist hafa séð hann þegar hún var í skóla fyrir nokkrum árum og þá hafi hann verið umvafin stelpum. Vinsæli strákurinn sem var vinur stelpnanna.
Það sem ég man er: ég og vinkona mín vorum inn í svefnherbergi foreldra hennar að lita í litabók á gólfinu. Hann bað mig um að koma til sín að hjónarúminu, krjúpa við það með litabókina og halda áfram að lita með bókina á rúminu. Á meðan girti hann niður um mig og gerði það sem hann gerði sem var nákvæmlega það sama og það sem maður númer tvö gerði. Ekki nauðgun, en allt án þess.

 


Áhrif alls þessa:

Eftir misnotkunina var ég ekki svo saklaus lengur, ég gerðist sek um að hafa lítið sjálfsöryggi, líkamsvitund í molum, feimni og svona má lengi telja. Allt þetta er enn til staðar í dag þökk sé barnaníðingum. Nú, ég var eins og hann Palli, ein í heiminum, að mér fannst. Þetta var svo ljótt leyndarmál sem ég átti en ekki datt mér í hug að þetta varðaði við lög. Hins vegar þegar ég var orðin fullorðin og baráttuvilji farinn að berjast um í mínu hjarta, áttaði ég mig á því að þetta var ekki mér að kenna heldur þeirra og að þeir ættu skilið að fara í fangelsi fyrir sína glæpi. En eftir mörg viðtöl á Stígamótum fór ég að hugsa um það að kæra. Þar kom ég algjörlega að lokuðum dyrum í íslenska réttarkerfinu. Af því að ég hafði tekið mér svo gríðarlega langan tíma í að melta þessi mál voru þau öll fyrnd samkvæmt lögum. Ég sit hér og skrifa þetta, reiðin kraumar alltaf í mér þegar ég hugsa um þetta, fæ hnút í magann og hendur mínar titra á lyklaborðinu af réttlátri reiði minni. Það sem ég upplifði mun aldrei fyrnast í mínum huga. Réttlætinu verður ekki fullnægt, þeir verða aldrei úrskurðaðir sekir.


Ég stakk þessu öllu saman skúffu og setti fína rauða slaufu utan um, og geymi hana fremst í huganum, alla daga og allar nætur. Ég höndla illa gagnrýni og forðast í lengstu lög að vera gagnrýnd í dag. Ég býð fólki ekki í heimsókn nema í sérstökum tilvikum. Ég fer aldrei í heimsóknir sjálf nema, eins og áður, í sérstökum tilvikum. Ég tek ekki þátt í menningarlífinu í plássinu sem ég bý í og er ekki ein af þeim sem er með puttana í öllu sem þarf að skipuleggja. Ég er vel liðin í vinnunni enda vinn ég vinnuna mína vel en ég er skelfingu lostin við að fólki muni finnast ég ekki nógu góð. Á yfirborðinu er ég glaðleg, litrík í klæðaburði, traustvekjandi og góð manneskja sem hefur ekki skoðanir og renn því í gegn hjá flestum áreynslulaust. Undir niðri er blæðandi sorgleg sál sem líður eins og heimsku ljótu trölli.

 


Ég fæ samt sem áður að heyra á hverjum degi hvað ég sé falleg frá manninum mínum og hvað hann elskar mig mikið. Ég legg mig fram við að vera vellyktandi, vel klædd, vel máluð og hrósa fólki mikið sjálf. Og fólk í kringum mig hrósar mér mjög mikið fyrir ýmislegt. En samt sem áður finnst mér ég aldrei vera nógu góð.  Og nánast því allt í þjóðfélaginu segir manni að maður sé ekki nógu góður ef maður er ekki grannur, brúnn og fallegur og klár. Því er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Erfitt að breyta venjum sínum sem eru hluti af persónuleikanum.
En það er hægt,  En það tekur tíma. Ég verð að reyna temja mér þolinmæði. Ég hef alltaf beðið(veit að margir kannast við það....) eftir þessum ÖRLAGADEGI eða augnabliki þar sem rennur bara allt í einu upp fyrir manni ljós og allir þínir djöflar eru á bak og burt. og maður skilur loksins, "aha, þess vegna borða ég!"  Þegar ég les tímarit með frásögnum kvenna og karla sem hafa tekið sitt líf í gegn les hugur minn úr því að það hafi bara eitthvað gerst hjá þeim í huganum sem varð til þess að það rann upp fyrir þeim ljós. Örlagadagurinn. Og það gerist örugglega, en ekki nema í einstaka, örfáum tilvikum. Við hin þurfum að láta okkur nægja að uppgötva smátt og smátt, gæti tekið marga mánuði eða jafnvel ár fyrir okkur að skilja. En við munum skilja ef við leggjum okkur fram og gefum okkur tíma, þolinmæði, hreinskilni og væntumþykju inn á við. Við getum heldur ekki gefið af okkur fyrr en við höfum eitthvað að gefa.  

Stígamót 

Ég var í viðtölum hjá félagsfræðingi fyrir mörgum árum, þegar ég var ekki orðin tvítug. Hann reyndi í hverju einasta viðtali að fá mig til þess að fara í viðtal á Stígamótum. Ég harðneitaði alltaf, sá fyrir mér grátandi konur með hor. Einn daginn náði hann að telja mig á að fara með því loforði að hann kæmi með mér og að ég mætti ganga út hvenær sem ég vildi ef mér litist ekki á.  Ég mætti á staðinn, efri hæð í gömlu timburhúsi þar sem verslunin Fríða frænka er á neðri hæðinni. Stígamót eru reyndar flutt núna. Gengið inn á miðhæð og upp brakandi stiga. Þetta var svo notarlegt, andinn í húsinu var stórkostlegur, umvefjandi og huggandi. Oh, hvað mér leið vel! Þröngur gangur inn í kaffistofu og nokkur hlýleg herbergi með listaverkum, sófum, kertum, blómum og borðum. Hljótt var í húsinu. Engar grátandi konur með hor. Mér var boðið að setjast inn í eitt af herbergjunum og þar hitti ég ráðgjafann minn. Ótrúlega fallega konu með þykkt, sítt ljóst hár og fallegt bros. Við náðum strax vel saman. Mér datt ekki í hug að ganga út. En þegar ég kom út eftir viðtalið staldraði ég við fyrir utan. Ég gleymi aldrei þessu augnabliki. Himininn virtist blárri og tærari og sólin skein skærar. Loksins, loksins, hjálp. Ég hélt áfram í viðtölum á Stígamótum í rúm 2 ár. Og er enn að í dag hér fyrir vestan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Harpa

Þú ert hugrökk, gáfuð og falleg kona. Ég veit að þú hefur lítið sjálfstraust og verður að vinna í sjálfri þér til að geta komið á framfæri þínum sterku skoðunum. Ég hef nefnilega oft hlustað á þig þegar þú talar um hitamál í góðra vina hópi og þú hefur mikla réttlætiskennd. Haltu svona áfram.

Ágústa (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 13:39

2 identicon

takk

kv

Lísbet

lísbet (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 13:57

3 identicon

Halló Harpa.

Mikið rosalega ertu hugrökk að setja þetta hérna inn, fannst mjög gott að lesa þetta og sjá hvernig fólki líður sem hefur orðið fyrir þessu. Finnst alveg hræðilegt að hugsa til þess að lítil börn þurfi að upplifa þetta, þetta á ekki að vera til, þau eiga að fá frið til að alast upp án þess að einhverjir perrar eyðileggi líf þeirra.

Vonandi hefur þú það gott, þú ert alveg yndisleg manneskja.

Bestu kveðjur, Halldóra Hallgrímsdóttir. 

Halldóra Hallgrímsdóttir (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 15:33

4 identicon

Hugrökk.. Ég er með tárin í augunum alveg óendanlega stolt þegar ég sé hugrekkið sem býr í þér. Þú ert svo yndisleg og ekki gleyma því hvað ÞÚ ert búin að gera fyrir mig. Ég er svo þakklát fyrir það að hafa kynnst þér;) Ég hlakka til að halda áfram í okkar baráttu við að koma þessu af stað. Kærar Kveðjur Sunneva Sig.

Sunneva (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 15:52

5 identicon

Elsku Harpa. Það er talað um að það þurfi sterk bein að þola góða daga.  En til að þola svona daga þarf maður stál bæði í taugum og beinum.

þor til að viðurkenna

vilja til framkvæma

tár fyrir fortíðna

og bros fyrir framtíðina,

en þessi ónáttúra hefur alltaf verið til og verður því miður alltaf til. En þeir sem gera svona þurfa að fá stöðuga áminningu frá samfélagin að SVONA GERIR MAÐUR EKKI OG KEMST EKKI UPP MEÐ ÞAÐ.

það er það sem hægt er að gera, opna umræðu og tala um þetta bara eins og veðrið þá verða gerundur hræddari við að framkvæma. Held ég.

Halla Signý

halla signý (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 16:38

6 Smámynd: Ólafur fannberg

segi bara eitt þú ert hugrökk....vonandi opnar þetta einhverjar umræður sem geta haft áhrif

Ólafur fannberg, 2.2.2007 kl. 19:57

7 identicon

Elsku Harpan mín, þú ert fallegust og hugrökkust. Mér þykir svo leitt að þú þurftir að ganga í gegnum þetta helvíti en vegna þess hvað þú ert sterk þá munu ógeðin vonandi hætta að ganga um göturnar. Þú ert yndisleg og ég elska þig og dái, haltu áfram baráttunni 

Hulda (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 23:42

8 identicon

Elsku Harpa

ég er stolt af að þekkja þig og það erbúið að vera ómetanlegt að koma og spjalla við þig og Hlyn í vetur

þú ert falleg og góð

kv ósk

osk (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 23:50

9 identicon

Elsku Harpa Mín

Ég sit hérna með tárin í augunum......  Og ég hugsa: vá hvað þú ert sterk. Að geta opnað þig svona og sagt frá þessu..... Mér finnst það ógeðslegt að svona menn geta verið til fá að anda og lifa þegar þeir eiga skilið að rotna í sínum ógeðslega heimi......

 Harpa mín þú ert fyrirmynd sem allir eiga að horfa upp til og dást af.... Þú sem ert svon yndisleg og frábær.. Alltaf svo fín og sæt, fyndin og skemmtileg elska þig svo mikið og er stolt af þér og stolt að vera frænka þín....  

Ólína Adda (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 15:45

10 identicon

Ég hreinlega dáist af hugrekkinu þínu. Það sem þið stöllur (Sunna og fl.) eruð að gera, að tjá ykkur um þessi mál á opinberum vettvangi, á eflaust eftir að auðvelda öðrum við að segja sínar sögur. 

Kv. Hafdís Gunn. 

Hafdís Gunn. (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 16:00

11 identicon

Elsku Harpa

Ég get ekki lýst því hvað ég er stolt af þér og hinum stelpunum í hópnum okkar. Það var svo flott að sjá glampann í augunum þínum í dag þegar þú varst að lýsa fyrir okkur hinum í Sólstöfum (systursamstökum Stígamóta) að þú hefðir bloggað um reynslu þína og hversu góð viðbrögð þú værir búin að fá frá vinum og vandamönnum. Það var kominn nýr tónn í rödd þína og allt þið fas ljómaði að nýjum styrkleika og tilgangi. Þú ert yndisleg og kjarkur sem þarf til að koma svona opinberlega fram er meiri en nokkurn getur grunað. Þú ert hetja í mínum huga. GO GIRL....... stend með þér alla leið.

Kveðja Harpa Stefáns

Harpa Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 17:05

12 identicon

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að skrifa; kjarnakona í það minnsta.

Ég minnist mjög veikrar ungrar konu á Borgarspítalanum fyrir 5 árum síðan. Ég fór með videospólur til hennar þegar Margrét Embla var pínulítil. Unga konan kepptist við að óska mér til hamingju og segja mér hvað hún væri falleg. Mér þótti skaparinn óréttlátur; önnur bekkjarsystirin nýbökuð móðir í þeirri alsælu sem það er og hin að berjast fyrir lífi sínu. Mér þótti þú svo ótrúlega dugleg. Æðrulaus. Ég held ég hafi aldrei sagt þér það. Fyrr en núna.

María.

María Ásgeirs (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 21:15

13 identicon

Elsku Harpa mín.

Ég sit hérna við tölvuna mína grátandi.  Ég get ekki og mun aldrei getað ímyndað mér hvað þú hefur gengið í gegnum.  Og þú stendur enn!! Hugekki þitt á eftir að hjálpa svo mörgum í gegnum svo erfiða tíma.  Ég er svo óendanlega stolt af þér og ég veit að þú átt eftir að ná langt.  Þú ert búin að opna þig.  Það er frábært og ég tek hattinn ofan af fyrir þér.  Það þarf ótrúlegt hugrekki.  Þú ert sterkari fyrir vikið, sterkari en þú heldur.  Þú ert yndisleg manneskja og átt allt það besta í heiminum skilið.  Ég get ekki lýst hversu mikið þú hefur gefið mér.

Ég elska þig svooooona mikið og miklu meira en það!!!!

Kveðja Berglind Ósk frænka 

Berglind Ósk (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 22:02

14 identicon

Elsku Harpa.  Þú ert búin að stíga ótrúlega stórt skref og ég er sannfærð um að það er bara í átt að hinu góða. Þú ert búin að létta fargi af hjarta þínu sem þýðir að eftir er miklu meira pláss fyrir góðu hlutina í lífi þínu og til að láta drauma þína rætast. Ég er stolt af þér elsku litla systir mín. Og sakna þín. Og elska þig.  Þín Íris

íris systir (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 00:07

15 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Kæra Harpa. Ég var að lesa um reynslur þínar og ég verð bara að klappa fyrir þér. Þú ert mjög sterk að geta talað um þínar reynslur opinberlega, og ég get lofað þér því að þú ert búin að hjálpa mörgum konum með að vera svona opin. Því miður er kynferðislegt ofbeldi stór hluti af íslenskri menningu og þetta er stórt vandamál í mörgum löndum. Mér finnst að refsingin eigi að vera miklu verri en einvher helv... fangelsisdómur, mér finnst satt að segja að það eigi bara að taka manndóminn af þessum mönnum, og finnst mér það ekki einu sinni vera nógu stór refsing. Þegar ung stelpa er misnotuð kynferðislega þá býr hún við sálarlegt helvíti það sem eftir er. Ég var gift manni hér í Ameríku sem að var ofbeldishneigður, líkamlega, andlega, sálarlega, og nokkrum sinnum kynferðislega, án þess að nauðga mér. Það er mjög erfitt að ná sér eftir svoleiðis upplifun, og það tekur rosalega vinnu í sjálfum sér að fara loksins að líða betur með sjálfum sér. Það er ánægjulegt að þú ert að vinna í sjálfri þér, að þú ert að tala um þína reynslu, og að þú sért með góðan mann og gott stuðningskerfi í kringum þig. Ég trúi á þig, þó svo að ég sé ókunnug kona sem býr í Ameríku. Ég ólst upp á Ísafirði og það getur vel verið að við höfum hist sem litlar stelpur. Ég óska þér alls hins besta, vertu sterk og trúðu á sjálfa þig. Þú ert hetja í mínum augum og baráttukona og haltu áfram á þessu striki, þú munt upplifa þinn dag þar sem að allt virðist betra, ég veit það, þinn dagur kemur. Á meðan, vertu ánægð með þig eins og þú ert núna, Guð gefur okkur ýmsar reynslur sem að eru erfiðar, en það eru einhver rök fyrir því að hann gefur okkur þessar reynslur. Þú ert greinilega að gera þitt besta með þinni reynslu og ert að hjálpa öðrum, Guð blessi þig fyrir það, þú ert hetja eins og ég sagði. Njóttu lífsins, ég held áfram að fylgjast með þér. Baráttukveðjur frá Kaliforníu, Bertha.

Bertha Sigmundsdóttir, 4.2.2007 kl. 21:26

16 identicon

Hjartans fallega Harpa mín, mikið óskaplega er ég stolt af þér. Það eru þínir líkir sem gera heiminn betri, kveðja Guja

Guja (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 19:10

17 identicon

Elsku Harpa, frænka mín. Eins erfitt það var að lesa þetta og vita hverjir eiga hlut að máli... þá er ég ótrúlega stolt af þér og vona að skrif þín hafi hrundið einhverju af stað. Mér hefur alltaf fundist þú svo frábær og yndisleg og langað að líkjast þér. Þú hefur alltaf sýnt mér hlýhug þar sem við hittumst á mannamótum og mér þykir mjög vænt um það. En ég finn til undan sársauka þínum og ég vildi að ég gæti tekið hann frá þér, því miður er það ekki hægt. Einn daginn vona ég samt að ég geti tekið fast utan um þig og sagt þér að þú sért frábær manneskja og að þú eigir allt það besta í heiminum skilið...!!!

Kv. Ásta María 

Ásta María (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 22:23

18 identicon

Elsku Harpa, ég segi eins og aðrir hérna að ég er stoltur af þér! Mér hefur alltaf þótt svo óendanlega vænt um þig, frænkuna mína. Ég óska þér bara til hamingju með að hafa fundið hugrekkið með sjálfri þér til að opinbera þetta hér á síðunni--þér eru allir vegir færir héðan af! Heimurinn þarf á fólki eins og þér að halda. Það eru ekki allir færir um, eða hæfir til að hjálpa öðrum, en þú ert það og þú átt eftir að spila stórt hlutverk í samfélaginu, ég er sannfærður um það.

Elska þig og sendi þér góða strauma, Kristján. 

Kristján Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 08:31

19 Smámynd: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir

Þú ert kjörkuð kona að segja sögu þína en það þarf líka kjarkaðar konur til að halda þessari umfjöllun á lofti. Gangi þér allt í haginn og sýndu áfram dugnað og þor.

kveðja

Ragna

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 7.2.2007 kl. 10:34

20 Smámynd: Dagný Kristinsdóttir

Þetta er frábær og þörf grein hjá þér. 

Þú er mikill sigurvegari að koma fram með þína sögu. Gangi þér allt í haginn og haltu áfram á þessari braut.

kv. Dagný Kristinsd. 

Dagný Kristinsdóttir, 7.2.2007 kl. 14:07

21 identicon

Kæra Harpa,

Mikið finn ég til með litlu Hörpu sem ég þekkti sem glaða og kærleiksríka stelpu. Ég er stolt af konunni Hörpu sem hefur hugrekki til að segja heiminum frá sárum sínum. Sárin hafa betri möguleika á að gróa ef maður lætur lofta um þau, plástrar hefta. Ég veit að þú hefur svo mikið að gefa af þínu kærleiksríka hjarta. Megi guð og góðir vættir vaka yfir þér.

þín Eydís

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 12:56

22 identicon

Kæra Harpa,

Eins dapurlegt það er að lesa sögu þína, þá fyllist ég stolti fyrir þína hönd yfir hugrekkinu sem þú sýnir með því að takast á við þessi mál.

Þó þér finnist þú oft ekki nógu góð og efist um sjálfa þig þá verðurðu að muna það að þennan styrk sem þú sýnir hér hafa ekki allir. Hjartahlýja þín og heilsteypt persóna fleytir þér áfram ásamt þeim sterku rótum sem þú kemur frá.

Haltu áfram að byggja þig upp og að vera svona stórkostleg manneskja.

Bestu kveðjur til þín og þinna,    Anna Málfríður.

Anna Málfríður (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Harpa Oddbjörnsdóttir
Harpa Oddbjörnsdóttir

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband