Í dag eru 8 ár liðin

MammaÞennan dag árið 1999 lést mamma, þá 48 ára gömul. Ég reyni alltaf að minnast hennar á einhvern hátt á þessum degi. Hlusta á Strauss eða Júpiters, blogga um hana, hringi í pabba, rifja upp skemmtilegar og fallegar minningar eða skoða af henni myndir. Stundum allt þetta.

Valsar Strauss, Júpiters, dans og stelputími

Þegar mamma var á lífi elskaði ég gamlársdag. Geri enn, en á annan hátt. Mamma var alltaf svo glöð á gamlárskvöld. Á meðan pabbi fór á brennuna setti hún valsa Strauss á fóninn og síðan fyrstu plötu Júpiters og dansaði og dansaði á stofugólfinu. Ég horfði alltaf á hana aðdáunaraugum, hávaxin og glæsileg, svo falleg og hamingjusöm og síða pilsið eða kjóllinn þyrlaðist um fætur hennar.
Hulda Guðrún frænka rifjar þetta upp líka stundum. Gleymir því ekki þegar mamma dró hana upp í dans, gjörsamlega taktlausa manneskjuna.

Á meðan tónlistin hljómaði um húsið gerðum "við konurnar" okkur sætari og fínni, fórum í fín föt, máluðum okkur og gerðum hárið gellulegt. Stelputími.

Ég sakna þín mamma.

Bush vs Pink

http://www.youtube.com/watch?v=6DEh0eSpNvY   Hvernig í ósköpunum getur hann sofið rótt??

Ilmandi eldspýtur

Mmmmmmm......aaahhhhh.... ég sit hér að kvöldi föstudags með eldspýtnailm í nösum. Jamm, ok ekki sjarmerandi við fyrstu lesningu en bíddu. Í dag fór ég í nornabúðina á Ísafirði. Heitir reyndar ekki nornabúðin heldur Orkusteinn.  Búðin opnaði í vor/sumar að mig minnir og ég hef alltaf verið á leiðinni að kíkja þangað en gleymi því iðulega. Í dag hinsvegar fór ég loksins. Tarotspil, reykelsi, tónlist, bækur, krossar, höfuðkúpur, hálsmen, armbönd, kerti, kristalskúlur og þar fram eftir götunum var í boði. Ég endaði á því að kaupa "mood ring" eða hring sem breytir lit eftir því hvernig skapi maður er í. Á því augnabliki sem ég keypti hann var ég afar róleg, samkvæmt hringnum, dökkblár. Gott mál. Einnig keypti ég 3 eldspýtnabréf með ilmandi eldspýtum. Hhmmmmmm...hvað er það? Ahhhh....góð lykt! Þú kveiktir á eldspýtunni, leyfir henni að brenna niður til hálfs og leggur hana svo niður í öskubakka eða á disk og leyfir henni að brenna út. Á eftir finnur þú  seiðandi ilm af sandalviði, jarðaberjum, og musk til dæmis eins og létta huggandi  snertingu ásvinar sem þú saknar. 

 

 


Létt á föstudegi

Ljóskan hringir í kærastan og segir: "Viltu vera svo vænn að koma hjálpa mér að pússla rosalega erfitt pússluspil, ég veit ekki laveg hvernig ég á að byrja ?"
Kærastinn spyr : Af hverju á myndin að vera?
Ljóskan: Miðað við myndina utan á kassanum þá á þetta að vera hani.
Kærastinn ákveður að fara að hjálpa henni með pússlið.

Þegar hann kemur hleypir hún honum inn og leiðir hann að borðinu þar sem hún hefur dreift úr öllum bitunum í pússlinu.
Hann skoðar bitana í smástund, lítur á kassann, snýr sér þá að henni og segir : "Í fyrsta lagi, alveg sama hvað við gerum, eigum við ekki eftir að geta sett bitana þannig saman að þeir muni á nokkurn hátt líkjast hana."
Hann tekur í hönd hennar og segir: "Í öðru lagi, vertu róleg, fáum okkur góðan tebolla og svo skulum við..." segir hann andvarpandi.......





(niður)

 

 

 

 

 

 


(niður)



 


















"..setja allt kornflexið í kassann aftur."


Smelltu á hlaupara

Eins og þið vitið þá hef ég verið að vinna að uppbyggingu Sólstafa Vestfjarða, systursamtaka Stígamóta. Þar sem starfsemin er að öllu leyti rekin á styrktarfé og sjálfboðavinnu langaði mig að benda ykkur á þetta :
Á þessari síðu: http://www.marathon.is/pages/aheit/ getur þú leitað að hlaupurum sem eru skráðir í Reykjavíkurmaraþon Glitnis og hafa valið að hlaupa í þágu góðgerðarfélaga.
Einnig er hægt að leita eftir ákveðnu góðgerðarfélagi og sjá hverjir hafa skráð sig til þess að hlaupa í þágu þess.
T.d. ef þið sláið inn Sólstafir Vestfjarða (blikk blikk....:), fáið þið upp fjóra einstaklinga sem ákveðið hafa að hlaupa í þágu þess.
VeljaNafnFæðingardags.VegalengdGóðgerðarfélag
Ásrún Sigurjónsdóttir18. sep. 198710 kmSólstafir Vestfjarða
Guðrún Arnardóttir29. júl. 199510 kmSólstafir Vestfjarða
Halldór Halldórsson25. júl. 196410 kmSólstafir Vestfjarða
Ingibjörg María Guðmundsdóttir16. jan. 196710 kmSólstafir Vestfjarða
Koma svo, smella á hlaupara og heita ákveðinni upphæð ef hann klárar!!!!!!!
Kveðja
Harpa

Sendiráð USA heimsækir Sólstafi

Tekið af www.bb.is :

 

 Sendiradsheimsokn

"Stjórnmálaerindreki bandaríska sendiráðsins heimsótti Sólstafi

Brad Evans, stjórnmálaerindreki sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi, og Axel V. Egilsson, stjórnmálafulltrúi stjórnmáladeildar þess, heimsóttu Sólstafi, systursamtök Stígamóta á Vestfjörðum, í gær. Heimsóknin var liður í upplýsingaöflun þeirra fyrir árlega skýrslu um mannréttindamál. Einnig heimsóttu þeir Fjölmenningarsetur og hittu bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. „Þetta var frábær heimsókn, og mikil viðurkenning fyrir okkur að þeir hafa tekið eftir starfi okkar“, segir Harpa Oddbjörnsdóttir, Sólstafakona. „Við sóttum þá út á flugvöll og sýndum þeim helstu staði á svæðinu. Síðan fórum við í Sólstafahúsið og áttum gott spjall. Þeir sýndu starfi okkar mikinn áhuga og sögðu að þessi málaflokkur væri einn mikilvægasti málaflokkurinn í mannréttindamálum yfirleitt.“

Helsta verkefni stjórnmáladeildar bandaríska sendiráðsins er að fylgjast með, greina og skýra stjórnvöldum í Washington frá þróun stjórnmála á Íslandi. Stjórnmálaerindrekinn er í reglulegu sambandi við íslenska stjórnmálamenn, fulltrúa ríkisstjórnarinnar, verkalýðsleiðtoga og aðra áhrifamikla íslenska borgara. Stjórnmáladeildin gegnir auk þess lykilhlutverki í upplýsingaöflun og vinnslu á fjölmörgum skýrslum um Ísland sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna gefur út árlega samkvæmt fyrirmælum frá Bandaríkjaþingi.

thelma@bb.is "


Loksins loksins!!

Er ekki tími til kominn að blogga, er ekki tími til kominn að blogga, bloggaaaa, bloggaaa, bloggaaa aa aaaa?!

Farin að sakna mín ? Ég gafst þó ekki upp eins og minn heittelskaði, pffft lélegt.....

Málið er að undanfarið hefur verið nóg að gera í vinnunni við að leysa af vegna sumarfría og þá hef ég ekki tíma til þess að skrifa eins og ég gerði. Fyrir utan það að við erum með PC tölvu heima og þá nenni ég ekki að blogga. Myndi gera það ef ég ætti fartölvu. Þannig að þið verðið bara að sætta ykkur við þetta.

Ég á eftir að setja inn gjörsamlega 1001 mynd frá sumrinu en er engan veginn að nenna því. Letidýr. Geri það við fyrsta tækifæri eins og Hlynur segir um svo margt sem hann ætlar að gera.....

Ýmislegt hefur gengið á í sumar og ætla ég að stikla á stóru :

Sólstafir

Sólstafahúsið okkar var tekið í gagnið eins og síðasta færsla lýsir vel. Nokkur einstaklingsviðtöl hafa farið þar fram þannig að starfsemin er hafin fyrir alvöru. Jibbííííí!!!!

Nú bíðum við eftir svari frá félagsmálaráðuneyti vegna umsóknar okkar um styrk vegna leigukostnaðar. Sendum bréfið í apríl.... Krossleggjum öll fingur.

Inga Maja okkar er flutt í annan landshluta þar sem hún mun gegna starfi skólastjóra. Við eigum eftir að sakna hennar mikið en óskum henni alls hins besta á nýjum stað í nýju starfi.

Billa okkar giftist Loga sínum á síðustu helgi, segi meira frá því síðar í færslunni.

Framundan hjá Sólstöfum

Stjórnmálaerindreki og fulltrúi hans hjá Sendiráði Bandaríkjanna kíkja í heimsókn til okkar þann 2. ágúst nk. Ég er reyndar ekki alveg með á hreinu tilgang heimsóknar þeirra hingað vestur en veit að þeir ætla að skoða eitthvað fleira heldur en aðstöðu Sólstafa. MJÖG SPENNANDI!!!!!

Sunna okkar og Eyjó hennar láta gefa sig saman þann 4. ágúst nk. Jibbííííí!!!! Hlakka geðveikt til ! Ég á að farða hana;)

Nokkrum dögum eftir brúðkaup þeirra munu þau flytja til Danmerkur, langt í burtu frá okkur:( Fáum ekki einu sinni að sjá fyrsta Sólstafabarnið sem Sunna ber undir (afhverju undir, á það ekki að vera yfir?? nei ég bara spyr...) belti berum augum fyrr en eftir dúk og disk. En jæja, það verður að hafa það, Sunna mun koma aftur að tveimur árum liðnum með menntun á bakinu sem á eftir að nýtast starfi hennar hjá Sólstöfum gríðarlega mikið.

Í haust förum við af stað með sjálfhjálparhópa og fræðslu í grunnskólum. Þó Sunna sé ekki á landinu þá mun hún stýra starfinu að utan og ég, Harpa S og Billa munum halda utan um hlutina hér á meðan.

Einkalífið (vil nú samt meina að Sólstafir séu hluti af því)

Við Hlynur erum hætt við að flytja til Rvk. Ætlum að kúra hérna lengur á Ísafirði. Ég er alveg að verða sátt við það, þó ég verði það sjálfsagt ekki alveg. Allar óléttu frænkurnar eru fyrir sunnan, Íris Júlía verðandi forseti alheimsins er þarna líka, og allir hinir ættingjarnir og vinirnir. Auk þess sem tækifærin í förðunarbransanum eru töluvert fleiri þar....

En já, ég mun þó fara suður eftir áramótin til þess að taka grunnnámið í förðuninni sem tekur 2 mánuði. Kem svo aftur hingað að því loknu. Sjáum svo hvað setur.

Að öðru...við pabbi héldum upp á 90 ára afmæli okkar (60+30) núna 14. júlí, afmælisdaginn minn, þar sem ég snapaði ókeypis afmælisveislu:) Pabbi nefnilega pantaði salinn og mundi ekki eftir því að ég ætti afmæli þennan dag ;) Hann er krútt.

Afmælið var haldið í Bolungarvík og tókst frábærlega vel og komu nánast allir sem var boðið, allavega var setið í tæplega hundrað sætum.

Nokkrir héldu skemmtilegar ræður, við systurnar sungum fyrir pabba(síðasta skipti sem ég fer upp á svið til að syngja) sem tókst prýðilega. Hljómsteitin Jón og hinir skemmtilegu en vanvirtu en ávallt síkátu tengdasynir hans Obba spiluðu undir auk þess sem þeir tóku nokkur lög. Algjör snilld.

Guja frænka stóð sig eins og hetja sem veislustjóri þrátt fyrir að hafa fengið stuttan undirbúningstíma.

Mínar kæru systur sungu líka fyrir mig, Sister (æ þið vitið sem Emelíana Torrini söng), og er ég ekki frá því að þar sé kominn heitasti systradúett norðan alpafjalla. Svakalega flottar!!

Thelma Rut litla þeirra Ella og Soffíu söng afmælissönginn fyrir pabba. Ég þóttist heyra nokkra eggjastokka klingja allsvakalega við söng hennar þar sem hún er ofurkrútt aldarinnar. Rauðhærð með stór augu og ótrúlega einlæg og ófeimin.

Jæja, hörðustu djammararnir (ég, Hlynur, Íris, Óli og Elli) enduðum kvöldið...nóttina....eða eiginlega morguninn á því að hjálpa starfsfólkinu á Edinborgarhúsinu á Ísafirði að reka út hina þrjóskustu, þar á meðal okkur sjálf, þegar klukkan var að slá fjögur....

Elma, Eyjó, Erna Sóley og Eva María, E-in fjögur s.s. mættu á Vestfirðina og voru hér í viku. Við hittum þau nánast á hverjum degi enda afskaplega yndislega fjölskylda. Við Elma hefðum reyndar alveg viljað meiri stelputíma saman en þetta varð að duga í bili.

Jæja, meira djamm. Helgina eftir afmælið, s.s. síðustu helgi, farðaði ég Billu mína fyrir brúðkaupið hennar sem fór fram í Haukadal, Dýrafirði. Athöfnin var heiðin þar sem þau eru Ásatrúa(stór stafur ?). hún fór fram í fjörunni og var ofboðslega falleg, ég felldi nokkur tár allavega....

Veislan var svo haldin í félagsheimilinu þar og spilaði hljómsveitin Barduka undir dansi. Algjörlega snilldarband!!!!

Svo hefur þessi vika verið hin rólegasta nema smá undirbúningur fyrir partíið sem ég er að halda í kvöld fyrir þá sem ekki var boðið í afmæli mitt og pabba. Það eru aðallega vinir okkar hér á Ísafirði og nágrenni og systkini Hlyns. Úff hvað það verður gaman, bolla bolla bolla og bjór!

Bið að heilsa liðinu!

Harpa


Til hamingju Vestfirðingar!

Yndislegur dagur !

 

Já, hann var yndislegur. Sunnudaginn 10. júní sl. opnuðum við formlega nýja húsnæðið okkar. Sólin reis, björt og fögur þennan dag og bauð þannig upp á fullkomin dag til þess að bjóða fólki að fagna með okkur opnun á húsnæði Sólstafa Vestfjarða.

 

Við mættum galvaskar á hádegi, íbúðin á hvolfi. Kassar, húsgögn og ryk, allt í einni hrúgu biðu okkar. Fjórir tímar til stefnu. Valkyrjurnar, við, hófumst handa við að undirbúa opnunina. Þrifum glugga að utan sem innan, færðum til húsgögn, gólf og húsgögn voru þrifin, blóm voru tínd í görðum til þess að setja í vasa og Samkaup var heimsótt til þess að kaupa pappadiska, plastglös,  sérvettur, kerti, klaka, mjólk og svo framvegis. Marsibil okkar, Billa, færði okkur nokkur dásamleg listaverk og hengdi upp á vegg ásamt verki eftir dóttur hennar, Sunnevu. Þær mæðgur slógu í gegn þennan dag og virðist Sunneva hafa listina í blóðinu, alveg eins og mamma hennar og pabbi.

 

Þegar klukkan sló 16 byrjaði fólk að streyma inn. Straumurinn hélt áfram að ólga og áður en við vissum af var húsið troðfullt af frábæru fólki sem komið var til að styðja starfsemina og okkur. Við áttum alls ekki von á svona mörgum! Rúmlega 50 manns tróðu sér inn í litlu íbúðina okkar, kysstu okkur og föðmuðu. Hamingjuóskunum ætlaði aldrei að linna, sem er nú ekki leiðinlegt.

 

Magnús Freyr, verslunarstjóri BT á Ísafirði mætti með styrk til Sólstafa í tilefni dagsins. Fartölvu hvorki meira né minna! Kærar þakkir fær BT frá Sólstafakonum !

 Opnun Sólstafa 009

Það er ótrúlegt hve fyrirtæki hafa verið dugleg við að styrkja okkur við uppbyggingu starfseminnar. Allir virðast vera til í að leggja hönd á plóg. Fleiri og fleiri virðast gera sér grein fyrir hversu mikil þörf er fyrir svona ráðgjafaþjónustu hér á Vestfjörðum og enginn vill láta sitt eftir liggja.

Gamla bakaríið gaf risa köku í tilefni dagsins sem kom sér vel því varla var agnarögn eftir þegar þessu lauk. Kakan var stórkostleg! Lógóið okkar var skorið út í marsípan og nóg var fyrir alla.  Kunnum við starfsfólki Gamla bakarísins miklar þakkir fyrir og vonum að þau komi í kaffi á næstunni. Opnun Sólstafa 005

Húsasmiðjan gaf einnig okkur ýmislegt sem kemur að góðum notum þegar nýtt húsnæði er tekið í gagnið.

Hvert sem við leituðum virtust allir meira en tilbúnir til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar.

 

Margir höfðu orð á því hve heimilslegt væri hjá okkur og notarlegt að sitja og spjalla. Það er nákvæmlega það sem við vorum að leita eftir. Þegar gestirnir voru farnir sátum við eftir, þreyttar en alsælar með daginn og okkur langaði ekkert að fara, svo gott er að vera þarna. Einhver andi virðist vera í húsinu sem lætur vel að sál okkar allra.

 

Til hamingju Vestfirðingar!

 

Það er loksins komið að því!

 

  

Í dag 10. júní kl 16:00 munum við Sólstafakonur opna nýja húsnæðið okkar að Túngötu 12, Ísafirði.  Þar með er starfsemin hafin fyrir alvöru.

Við höfum á undanförnum vikum undirbúið okkur, unnið að því að gera húsnæðið heimilislegt fyrir þá sem þangað vilja leita. Íbúðin sem við höfum tekið á leigu er lítil en ofboðslega notarleg og á hárréttum stað. Húsgögnin höfum við fengið frá Sunnevu okkar og nokkrum velviljuðum einstaklingum.

gingerbread-home-sweet-home 

Öllum er boðið að koma að fagna þessum áfanga með okkur auk þess að  fá kökusneið og góðan kaffibolla.

 

Við vonum að sem flestir sjái sér fært um að koma og sýna þannig starfi okkar stuðning.

 

Baráttukveðjur,

 

Sólstafir Vestfjarða, systursamtök Stígamóta


Sólstafir Vestfjarða, systursamtök Stígamóta hljóta veglegan styrk!!

ÓB hópurinnNokkrir einstaklingar innan kunningjahóps sem hafa hist reglulega á kaffihúsinu Langa Manga yfir kaffibolla, tóku sig saman og ákváðu að halda fegurðarsamkeppni í óbeislaðri fegurð, Í Hnífsdal þann 18 apríl sl. 

Fegurðarsamkeppnin á sér enga líka, onei. "Óbeisluð fegurð" var titill hennar og þar kepptu 13 einstaklingar á misjöfnum aldri, misjafnlega mikið grannir eða bústnir, hrukkóttir, hávaxnir eða lágvaxnir, með hækjur eða án. Því meira sem lífið sást utan á þeim því betra. Keppnisreglurnar voru mjög einfaldar: þátttakendur áttu að vera komnir af barnsaldri, vera sem upprunalegastir sem þýddi að engar hárígræðslur, brjóstastækkanir eða aðrar lýtaaðgerðir voru leyfðar.  Tilgangur keppninnar er að vekja athygli fólks á þeim kröfum og stöðlum sem fegurðariðnaðurinn setur varðandi útlit. Hópurinn bendir á að aðeins lítill hluti mannskys nái þeim stöðlum og alvarlegt sé að fólk sé jafnvel að látast úr lystarstoli vegna þeirra. Því ákvaðu þau að búa til sína eigin staðla sem byggja á náttúrulegri fegurð. Fólk eigi að vera stolt af líkama sínum og mörkum lífsins á honum eins og hrukkum og slitum.

Keppendur

ÓB hópurinn tók strax þá ákvörðun að allur ágóði af keppninni myndi renna til Sólstafa Vestfjarða, systursamtaka Stígamóta, sem ég og 5 aðrar konur hér fyrir vestan hafa verið að berjast fyrir að koma á fót.

Í dag kl 17 fór fram afhending styrksins til okkar og mættum við Inga Maja galvaskar, spenntar og ákaflega þakklátar Sólstafakonur til þess að taka við honum. Aldrei hefði okkur dottið í hug hve upphæðin var há!!!!!! 497.000 kr !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!InLove

Ég er ennþá með gæsahúð! Við erum allar ótrúlega þakklátar og hrærðar yfir þessu. ÓB hópurinn, keppendurnir og allir þeir sem stóðu að þessari keppni eiga 100 falt húrrahróp skilið fyrir þetta, algörlega ómetanlegt að fá svona mikinn stuðning í nýhafinni baráttu okkar.

Lýk þessari færslu með tilvitnun:

Það eru aðeins miklar sálir sem skilja hve dýrðlegt er að gera gott.

-Sófókles

Ps. kíkið á síðuna okkar www.solstafir.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Harpa Oddbjörnsdóttir
Harpa Oddbjörnsdóttir

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband