"Hve lengi eigum við sem eigum um sárt að binda í sálinni að þurfa að berjast áfram á blóðugum hnúunum ?" spurði ég félagsmálaráðherra

"Hve lengi eigum við sem eigum um sárt að binda í sálinni að þurfa að berjast áfram á blóðugum hnúunum ?" spurði ég félagsmálaráðherra titrandi röddu á fundinum í gær.

Kl 20 í gærkvöldi var haldinn stjórnmálafundur hér á Ísafirði þar sem fulltrúar flokkanna í framboði héldu framsögur og svöruðu fyrirspurnum úr sal. Byrjað var á framsögunum, þar töluðu Birna Lár fyrir xD, Jóna Ben fyrir xV, Pálína Vagns fyrir xÍ, Guðbjartur Valdimars fyrir xS, Svanlaug fyrir xB og Kristinn H fyrir xF. Flestir stóðu sig vel sem ræðumenn en ræðurnar einkenndust þó af skítkasti yfir á hina flokkana. Nema reyndar hjá Pálínu sem var frekar á jákvæðu nótunum. Ég heyrði nú ekkert nýtt koma fram á fundinum. Undanfarið hef ég legið á netinu við lestur bloggsíðna, heimasíðna flokkanna og horft á flesta þá kosningaþætti sem hafa verið í sjónvarpinu.  Það sem ég heyri og sé er mestallt loforð og skítkast. Hvorugt hefur hjálpað mér mikið við að ákveða hvaða flokkur eigi skilið mitt atkvæði.

Anyway, ég mætti sem sagt galvösk á fundinn með það í huga að hlusta með opnum huga á framsögumenn og jafnvel, í pissupásunni,  að hitta á starfandi félagmálaráðherra, Magnús Stefánsson sem situr í 1. sæti á lista xB í NV. Ætlaði að ræða við hann um Sólstafi Vestfjarða, systursamtök Stígamóta, sem við gellurnar höfum verið reyna að koma á fót hér.

Nei, Harpa litla með ópalhjartað tók sig til og kom með fyrirspurn til hans á fundinum sjálfum. Nötrandi tók ég við hljóðnemanum byrjaði á því að kynna mig; "Harpa heiti ég og er þolandi kynferðisofbeldis....og ég er svolítið stressuð...."(aaaaarrrrg! svona segir maður ekki!!!).

Sagði ég frá því að með aðstoð fyrirtækja og einstaklinga á Vestfjörðum værum við hjá Sólstöfum Vestfjarða að reyna að koma á fót ráðgjafaþjónustu fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Einu úrræðin sem hér væru er að fara til sálfræðings(karlmanns, sem oft er mjög erfitt fyrir konur sem karla sem lent hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi) á 3 vikna fresti og borga morðfjár fyrir, og jafnvel á 9-12 vikna fresti þegar veður er vont. Nei, takk.

Brave_little_penquin_and_a_polar_be

Ég lauk fyrirspurninni á því að segja með kökkinn í hálsinum " hve lengi eigum við sem eigum um sárt að binda í sálinni að þurfa berjast áfram á blóðugum hnúunum?". Svo beyglaðist ég niður í stólinn andstutt og gráti nær. Á KOSNINGAFUNDI!!!!!! Andsk, helv, djö...hvað ég þoli ekki mitt litla viðkvæma hjarta. Pottþétt að ég er ekki á leið í pólitík.....Ímyndið ykkur mig á Alþingi, grátandi í pontu....eldrauð í framan og með suðurlandsskjálftann í beinum ?


Hugsa mig 7000 sinnum um áður en ég fer í bikinivax eftir þessa frásögn....

Fékk þessa sérdeilis skemmtilegu sögu senda á póstinn minn...deili henni með ykkur.

 

Reynslusaga af vaxi

Ég raka venjulegast á mér lappirnar því ég er bara of nísk til að fara reglulega í vax til að ráða við þennan frumskóg á löppunum á mér. Síðan fór ég í Hagkaup um helgina og sá eitthvað rosalega sniðugt vax, auðvelt í notkun, sársaukalaust og það besta að maður á að vera laus við hárin í 4-5 vikur..... og það var á tilboði! Þannig að ég skellti mér á það.

Síðan svæfði ég börnin og fór síðan inn á bað til að byrja hreingerninguna, ætlunin var nefnilega að koma kallinum á óvart þegar hann kæmi heim úr ferðalaginu seinna um kvöldið. Ég tók vaxið upp úr kassanum, þetta var svona kaldir vaxrenningar sem átti að nudda á milli handanna til að hita áður en þeir væru settir á hárugu svæðin. Ég byrjaði að nudda renningana en sá fram á að það myndi taka alltof langan tíma og fékk því snilldarhugmynd. Ég lagði þá bara á borðið við hliðina á vaskinum, náði í hárblásarann, setti hann í botn og var nákvæmlega enga stund að hita þá.
Síðan setti ég þá á leggina á mér og....... þetta var.... heitt og alls.
ekki. sársaukalaust!

En ég viðurkenni þó að ég átti von á meiri sársauka, kona sem hefur gengist undir tvennar deyfilausar fæðingar og rúmlega 30 spor í hvort sinn, þolir nú alveg að 100+ hár séu rifin upp með rótum með einum vaxstrimli. Þannig að ég hélt áfram, kláraði lappirnar og eina rauðvínsflösku í leiðinni.

Þá fékk ég aðra brilljant hugmynd, ákvað að koma kallinum virkilega á óvart og leyfa honum að kíkja á eina sköllótta, það myndi án efa leiða til ýmissa skemmtilegra "æfinga". Þannig að ég athugaði með börnin, þau voru enn sofandi, náði mér í aðra rauðvínsflösku, hitaði vaxrenning, setti annan fótinn upp á klósettið og skellti renningnum í klofið..... og reif af. Ó MÆ GOD!!! Ó JESÚS KRISTUR!!! ÉG SÉ EKKERT, ÉG ER BLIND, ÞVÍLÍKUR SÁRSAUKI!!! Ég var blinduð af sársauka, sló niður hárblásarann og rauðvínsflöskuna áður en ég náði andanum aftur. Ég hélt ég hefði gelt sjálfa mig með því að rífa af mér hálfa píkuna! Ég þakkaði allavega fyrir að miðað við sársaukann þá gat ekki verið eitt stingandi strá eftir.

Ég leit á vaxrenninginn. FUCK! FUCK, SHIT, FUCK! Hann. var. tómur. Ekki eitt einasta hár á renningnum.... og ekki neitt vax heldur! HVAR VAR VAXIÐ??? Ég leit hægt niður, hrædd við sjónina sem beið mín..... allt vaxið af renningnum var í klofinu á mér. Ég leit til himins. WHY? Og gjörsamlega miður tók fótinn niður af klósettinu! Mistök! ÞVÍLÍK MISTÖK!
Ég gjörsamlega heyrði píkuna og rasskinnarnar límast saman!

Ég gekk um baðherbergisgólfið algjörlega miður mín og hugsaði hvað til bragðs skyldi taka. Hvernig get ég losnað við vaxið. Ég prófaði að toga það af með puttunum. Ekki góð hugmynd. Ég yrði að láta það leysast upp, bræða það á einhvern máta. Hvað bræðir vax? Mér varð litið á hárblásarann en hvarf strax frá þeirri hugmynd þar sem mig langaði ekki til að útskýra brunasárin á brunadeildinni niður á Borgarspítala. Vatn! Vatn bræðir vax.
Ég lét vatn renna í baðið, svo heitt að Saddam Hussein hefði kosið að nota það til að pynda óvini sína, ég aftur á móti dró andann djúpt, gekkst undir pyntingar sjálfviljug og settist í baðkarið.

Ég komst að nokkru sem ég hafði ekki vitað áður. Vatn bræðir ekki vax!
Neibb, 60 gráðu heitt vatn bræðir ekki vax, aftur á móti var ég nú límd föst við baðbotninn! Heilinn fór í óverdræv, hvernig gat ég bjargað mér úr þessari klípu? Eftir ýmsar tilraunir sem allar mislukkuðust, náði ég í Lady rakvélina mína og ákvað að skafa vaxið af! Ef ykkur langar til að vita hvernig það var legg ég til að þið rakið ykkur með ársgamalli vel notaðri rakvél, notið ekki vatn né nokkurs konar sápu. Þá komist þið nálægt því!

Ég var að reyna að skafa vaxið af þegar ég kom loksins auga á bjargvættinn minn. Hallelújah, Praise the Lord. Það fylgdi nefnilega með í pakkanum svona vax remover. Ég hafði bara ekki tekið eftir því fyrr. Ég flýtti mér að ná í bómull, hella slatta í og nudda yfir vaxið. ÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ! Klofið á mér brann! Það var eins og ég hefði hellt yfir það bensíni og kveikt í! En mér var sama því helvítis draslið virkaði. Því þoldi ég sársauka sem yfirgnæfði allan þann sársauka sem ég hafði upplifað við fæðingarnar og gerði mig 150% tilbúna í 10 fæðingar í viðbót.

Þegar ég var búin að hreinsa allt vaxið af skoðaði ég djásnið. Þrátt fyrir öll ósköpin hafði ekki. eitt. einasta. hár. horfið! Ekki. eitt. einasta!!!

Þegar maðurinn kom heim var ég búin að víggirða minn helming af rúminu.....

Ziggurat-screaming


Óbeisluð fegurð 2007 og ferming

Kominn tími á blogg er það ekki?

Ég og Monsa erum enn einar í kotinu og söknum Hlyns gríðarlega mikið. Hann kemur ekki heim fyrr en 10. maí en er þá kominn til að vinna í slökkviliðinu hér í sumar:) Getiði ímyndað ykkur hvað hann klæjaði mikið þegar bruninn í miðbænum átti sér stað?

En já, ýmislegt hefur gerst síðan ég bloggaði síðast:

Keppt var í Óbeislaðri fegurð á miðvikudaginn síðasta og mættum við Sólstafakonur allar nema ein sem var ekki á staðnum. Kvöldið var stórkostlegt! ÓB hópurinn ákvað að allur ágóði af keppninni skyldi renna til okkar sem við áttum ekki orð yfir og erum við að eilífu þakklátar. Talsmenn keppninnar töluðu um að flest fyrirtæki sem þau leituðu til eftir styrk (til þess að kostnaður yrði sem minnstur svo við fengjum sem mest;) ) tóku svo vel í þetta allt saman að þau hefðu verið mjög hrærð. Og töluðu þau sérstaklega um vestfirsk fyrirtæki! Eini bankinn t.d. sem styrkti keppnina var Sparisjóður Vestfjarða sem hafði áður styrkt Sólstafi með peningum:) En ég verð þó að nefna að menningarsjóður Glitnis hefur styrkt Sólstafi um 100 þús kr. með beinum styrk sem er stórkostlegt!

ÁstaEn að kvöldinu sjálfu; það var æðislegt! Troðfullt félagsheimili Hnífsdælinga bar þess merki að mikill áhugi væri fyrir breyttum áherslum á stöðlum á útliti. Þátttakendur keppninnar voru af öllum stærðum, á öllum aldri og öll tóku þau þátt fyrir gott málefni( Sólstafi) auk þess sem þau vildu leggja áherslu á að við erum öll falleg á okkar hátt. Við þurfum ekki öll að vera steypt í sama mót, enda myndi lífið nú ekki vera litríkt og skemmtlegt ef svo væri.

Takk fyrir okkur segji ég!

Að öðru; um daginn fengum við Hlynur boðskort í fermingarveislu Heiðdísar Láru Ómarsdóttur, sem er dóttir Kötu. Kata er kona Ólafs sem er bróðir Hildar fyrrv. konu Dúa bróður Hlyns. Flókið, já.

Ég bauðst til þess að farða Heiðdísi í fermingargjöf(mjög þægilegt þar sem við erum félítil þessa dagana) og þáði hún það. Heiðdís mætti til mín í dag rétt yfir tólf á hádegi og settum við Lay Low á fóninn til þess að skapa þægilega stemmningu. Heiðdís er ofboðslega falleg og ekki leiðinglegt að fá að farða hana. Stór augu, skarpir andlitsdrættir, fögur kinnbein og svo framvegis. Ég dúllaði mér með henni í u.þ.b. klst. Hún var glæsileg! Bara þunnt lag af farða, smá lit á augnlokin og glært gloss, svona natural:)  Mér þótti samt erfitt að gefa eitthvað sem ekki var hægt að þreifa á þannig að ég gaf henn lítið ilmvatnsglas áður en hún fór. 

IMG_2986Myndin af henni er frá 2006 þegar við fórum í afmæli til Ólaf og Kötu.

Eftir förðunina sletti ég smá andliti á mig sjálfa og beið svo þar til klukka varð 16. Brunaði ég þá inn í fjörð í veisluna þar sem steikt lambalæri var í boði ásamt kökum í eftirrétt. Fullt af fólki sem gaman var að hitta:)

 

Jæja þetta er nóg í bili, góða nótt yndislega fólk þarna úti!

knús Harpa


Blaðburðardrengur á línuskautum...

Eins og allir vita sem hafa komið heim til okkar eru stigarnir í sameigninni frekar skerí. Þröngir, dimmir og brattir. Allir eru hræddir við að ganga upp og niður og vilja frekar fljúga fram af svölunum. En það stoppar ekki blaðburðardreng Bæjarins besta frá því að smella á sig línuskautum á hverju fimmtudagskvöldi og þramma upp og niður stigana, glaðan í bragði yfir því að leggja sig í lífshættu fyrir 300 kr. Og við segjum oftar nei en já við greyið....

g0205207


Aldrei fór ég suður 2007 og fleiri myndir

RVK feb 2007 147Jesús minn almáttugur hvað Mugison var ótrúlega góður á Aldrei fór ég suður í gærkvöldi !!!! Ég fékk gæsahúð af því að horfa á hann og þá sem spiluðu með honum. Hefði migið á mig ef mig hefði vantað að pissa. Hann er einfaldlega snillingur maðurinn.

Hér sjáið þið myndir frá hátíðinni.

og fleiri myndir:

Helgi og Jakob í páskaheimsókn

Afmæli hjá Sigrúnu


Píkan mín er reið

 Textinn hér að neðan er tekinn úr handriti P.S eftir EVE ENSLER

Íslensk þýðing: Ingunn Ásdísardóttir

10.PÍKAN MÍN ER REIР

Birna Píkan mín er reið. 

Leikkona 2 Reið. Grautfúl.  

Birna Hún er forkreið og þarf að ausa úr sér. Hún þarf að tala um alla þessa helvítis vitleysu. Hvað á þetta að þýða – það er her manns í því að upphugsa nýjar og nýjar leiðir til að pína vesalings litlu mjúku ástríku píkuna mína. Leggja nótt við dag við að finna upp alls konar klikkað drasl og andstyggilegar hugmyndir til að gera lítið úr píkunni á mér. Allt þetta drasl sem þeir eru stöðugt að reyna að troða upp í okkur, hreinsa okkur – stífla okkur, láta píkuna hverfa. Ég ætla bara að láta ykkur vita það að mín er ekkert að hverfa. Hún er grautfúl og hún er ekki að fara neitt.  

Leikkona 2 Tökum túrtappa - hvers konar djöfuls drasl er það? Þurr og stamur bómullarvöndull sem troðið er þarna upp. Af hverju geta þeir ekki fundið upp eitthvert sleipuefni til að setja á hann? Píkan á mér fær sjokk um leið og túrtappi kemur nálægt henni. Hún argar honum í burtu. Hún lokast. Maður verður að eiga góða samvinnu við píkuna, kynna hlutina fyrir henni, undirbúa jarðveginn. Um það snýst allur forleikurinn. Það verður að sannfæra píkuna á mér, tæla hana, vinna traust hennar. Og það er sko ekki hægt með þurrum helvítis bómullarvöndli.   

Soffía Öll þessi ilmsprey, með blóma-, berja eða rigningarangan. Ég kæri mig ekkert um að píkan á mér lykti eins og ber eða rigning. Skrúbbuð eins og ef maður þvæði fiskinn þegar búið er að sjóða hann. Ég vil finna bragðið af fiskinum. Þess vegna panta ég hann. Þannig er konan, þannig er ég. Allir mínir vökvar í einni kássu og lykta af fiski. 

Helga Vala Og svo er það þessi skoðun. Hver fann hana upp. Það hlýtur að vera til betri leið til að skoða mann þarna. Þessi harði stífaði sloppur sem klórar mann í geirvörturnar og brakar í þegar maður leggst niður svo manni finnst maður helst vera dúkka sem einhver hefur hent. Til hvers eru þessir gúmmíhanskar? Ljósið sem beint er þarna upp eins og eigi að vinna gegn þyngdaraflinu? Stálstoðirnar eins og frá nasistatímanum og ískaldur andargoggurinn úr járni sem troðið er þarna upp? Hvað á þetta að þýða. Hvernig stendur á því að konur sem eru kvenlæknar samþykkja svona lagað? Píkan á mér er fokreið út af svona heimsóknum. Hún fer í vörn mörgum vikum fyrirfram. Hún lokast, neitar að „slaka á“. Þolið þið það? „Slakaðu á skeiðinni þinni, slakaðu á skeiðinni þinni.“ Til hvers? Píkan á mér er ekkert vitlaus – hún veit alveg hvað er á seiði,  – hún á að slaka á svo að hægt sé að troða þessum kalda andargoggi upp í hana. Ég held ekki. Skoðun, móðurlífsskoðun? Þvaður. Þetta er meira eins og móðurlífsaftaka.   

Birna Af hverju geta þeir ekki fundið mjúkt dökkrautt flauel til að vefja utan um mig, leyft mér að leggjast á dúnmjúkt bómullarteppi, sett á sig gúmmíhanska í vinalegum bleikum eða bláum lit og sett loðklæddar stuðningsstoðir undir hnén á mér? Og hitað aðeins andargogginn. Haft samvinnu við píkuna mína.   

Leikkona 2  En nei, bara meiri pyntingar –   

Soffía þurrir bómullarvöndlar,  

Helga Vala kaldir andargoggar  

Birna  og nærbuxur sem eru ekkert nema strengurinn. Það er einna verst. Nærbuxur sem skerast upp í. Hver fann þær upp? Þetta er aldrei kyrrt á sínum stað, skerst upp í legopið og er andstyggilegt.Píkan á að geta verið óheft og opin, ekki pressuð saman. Þess vegna eru magabelti svo óholl. Við verðum að geta hreyft okkur og breitt úr okkur og talað og talað. Píkur þurfa að hafa það þægilegt. Það þyrfti að koma því í kring.  

Leikkona 2 Ég meina, ef það væru hannaðar mjúkar bómullarnærbuxur með innbyggðum litlum unaðshnúð. Konur væru þá að fá það allan daginn út og inn, í stórmarkaðnum, í strætó,. 

Soffía Ég ætla að fá þrjá lítra af mjjjjjóooooolk!! 

Helga Vala   Skiiiiiiii.....iiiiii....ptimiða takk! 

Birna Ef píkan á mér gæti talað mundi hún tala um sjálfa sig eins og ég, hún mundi tala um aðrar píkur og hún mundi leika í píkusögum. 

Leikkona 2 Hún mundi ekki vera í neinum fötum, bara hengja fullt af demöntum um sig alla. 

Soffía Píkan á mér hjálpaði einu sinni til við að koma risastóru barni í heiminn. Ég hélt að hún mundi gera meira af því en svo var ekki. Nú langar hana til að ferðast, en ekkert í of stórum hóp.  

Helga Vala Hana langar til að lesa og læra um hluti og sjá svo margt. Hana langar í kynlíf. Hún elskar kynlíf. Hún vill komast dýpra. Hana hungrar í dýpt. Hana langar að komast í fornleifarannsóknir og grafa upp upphafið.  

Birna Hún vill fá hlýju. Hún vill breytingar. Hún vill þögn og frelsi og blíðlega kossa og hlýja safa og djúpa snertingu. Hún vill súkkulaði og traust og fegurð.  

Leikkona 2   Hana langar til að garga. Hana langar til að hætta að vera reið. Hana langar til að fá það. Hana langar til að langa. Hana langar. Píkan mín, píkan mín. Ja sko … hana langar í allt.


www.solstafir.is !!!!

Allir að kíkja á www.solstafir.is !!!!!!!!!!!!!!!!!!

Píkusögur hluti úr handriti

Mig langar til þess að deila þessu með ykkur. Ég fór á Píkusögur hérna á Ísafirði í gær. Ég grét og ég hló og ég fékk gæsahúð ítrekað. Helga Vala, Sossa, Birna Lár og Gulla úr Stelpunum stóðu sig vægast sagt stórkostlega! Mig langaði til þess að hoppa upp á svið og faðma þær allar þegar sýningunni lauk. Takk fyrir mig stelpur !

Ég skammast mín þó fyrir tvennt, í fyrsta lagi mættu sárafáir. Algjörlega vestfirðingum til skammar að troðfylla ekki húsið. Í öðru lagi lét enginn blaðamaður eða ljósmyndari sjá sig. Þetta tvennt þykir mér ámælisvert.

En so be it. Ég skemmti mér allavega vel.

Textinn hér að neðan er tekinn úr handriti P.S eftir EVE ENSLER

Íslensk þýðing: Ingunn Ásdísardóttir

 

8. Píkan mín var þorpið mitt

 

 

Leikkona 2

Á stríðsárunum í Júgóslavíu voru tekin viðtöl við bosnískar konur sem dvöldu í flóttamannabúðum og kvennaathvörfum.

Í miðri Evrópu voru nauðganir notaðar sem kerfisbundin hernaðaraðferð. Tuttugu til sjötíu þúsund konum var nauðgað. Það hræðilega var, að horfa upp á hve lítið var gert til að stöðva þetta.

 

Á hinn bóginn er yfir fimm hundruð þúsund konum nauðgað árlega í Ameríku, sem telst þó ekki eiga í neinu stríði.

 

Á Íslandi eiga líka að heita friðartímar, og samt er tilkynnt um nauðganir annan hvern dag.

 

Af hundrað sjötíu og fimm konum, sem í fyrra leituðu sér hjálpar vegna nauðgana á neyðarmóttökum, treystu aðeins þrjátíu og fjórar sér til þess að kæra. Af þrjátíu og fjórum kærum fóru tuttugu og ein til saksóknara og ákært var í sex málum. Fjórir nauðgarar voru dæmdir.

 

Þetta eintal er byggt á sögu einnar konu. Hún var múslimsk eins og margar þeirra kvenna sem talað var við. Þessi kafli er tileinkaður henni og öllum hinum konunum sem lifðu af þau hryllilegu grimmdarverk sem áttu sér stað í Bosníu og Kosovo.

 

Soffía

Píkan mín var þorpið mitt

Píkan á mér var grænt gras, tjörn, bylgjandi bleikir akrar, baulandi kýr, sól, hvíld, sætur strákur sem kitlaði mjúklega með gulu strái.

 

Helga Vala

Það er eitthvað á milli fótanna á mér. Ég veit ekki hvað það er. Ég veit ekki hvar það er. Ég snerti það ekki. Ekki núna. Ekki lengur. Ekki síðan.

Soffía

Píkan á mér var málgefin, get ekki beðið, svo mikið, svo mikið, segir orð, talar, getur ekki hætt að reyna, getur ekki hætt að segja, ójá, ójá.

 

Helga Vala

Ekki síðan mig fór að dreyma að það sé hræ af dýri saumað í mig þarna niðri með grófri svartri fiskilínu. Og hrædaunninn hverfur ekki. Og dýrið er skorið á háls og blóðið flekkar alla sumarkjólana mína.

 

Soffía

Píkan á mér syngur alla stelpusöngvana, alla smalasöngvana, geitabjöllurnar og sumarlögin, uppskerusöngva haustsins, píkusöngva, söngvana úr sveitinni sinni.

 

Helga Vala

Ekki síðan hermennirnir ráku stóran langan riffil inn í mig. Ískalt stálskeftið stöðvar hjartslátt minn. Ég veit ekki hvort þeir ætla að hleypa af eða reka hann alla leið upp í haus á mér. Þeir eru sex, læknaskrímsli með svartar grímur, troða líka flöskum þarna upp í mig. Þeir eru líka með prik og sópsskaft.

 

Soffía

Píkan á mér syndir, tær árstraumurinn, glitrandi vatnið brotnar á sólbökuðum steinum, á steinsnípum, enn og aftur á snípsteinum.

 

Helga Vala

Ekki síðan ég heyrði holdið rifna og veinaði klípandi sársaukahljóðum, ekki síðan hluti af píkunni á mér losnaði af í hendi mér, hluti af skapabarminum, nú er annar skapabarmurinn alveg af.

 

Soffía

Píkan mín. Vott lifandi vatnaþorp. Píkan mín, heimabær minn.

 

Helga Vala

Ekki síðan þeir skiptust á í sjö sólarhringa þefjandi af saur og reyktu fleski, skildu sæði sitt eftir í mér. Ég varð ein rennandi for af eitri og vilsu og öll uppskeran brást og fiskarnir dóu.

 

Soffía

Píkan mín var vott lifandi vatnaþorp.

Þeir réðust inn í það. Limlestu það

og brenndu í rústir.

Ég snerti þar ekki nú.

Kem ekki þangað.

Ég bý einhvers staðar annars staðar nú.

Ég veit ekki hvar.


Nýjar myndir!!!!

Reykjavíkurferð í mars 2007

Mig vantar smá aðstoð!

Ég tengdi færsluna við þessa frétt að því að hún er mest lesin í augnablikinu.....;)

 

Nú vantar mig smá aðstoð. Nokkrar stúlkur hér fyrir vestan eru að vinna að uppbyggingu Sólstafa Vestfjarða, systursamtaka Stígamóta. Sólstafir eru staðsettir á Ísafirði og erum við á byrjunarstigi eins og er. Eins og er erum við að leita að húsnæði fyrir okkur, styrkjum og svo framvegis til þess að þessi draumur verði að veruleika.

 

Tölvu og netþjónustan Snerpa hefur hjálpað okkur alveg ótrúlega mikið að undanförnu við hönnun og uppsetningu heimasíðu okkar sem er í vinnslu eins og er og verður opnuð formlega á næstu vikum. Gústi hjá Snerpu hefur einna mest unnið að þessu verkefni, hannað útlit síðunnar og logo og svo framvegis. Gústi rúla feitt skal ég segja ykkur !

 

Já sem sagt, nú erum við að sanka að okkur efni til þess að setja á heimasíðuna og í augnablikunu er ég að vinna að því að finna tengla. Mig langar til þess að setja tengla inn á síður sem eru " sjálsstyrkjandi" ef þið vitiið hvað ég meina. Eitthvað sem er gott að lesa þegar manni líður illa.

Því bið ég ykkur lesendur góðir, að benda mér á síður sem þið farið á þeim dögum sem sólin er hulin skýum.

 

allar ábendingar eru vel þegnar!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 

knús

Harpa O


mbl.is Handtaka átti Spaugstofumenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Harpa Oddbjörnsdóttir
Harpa Oddbjörnsdóttir

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband