Notarleg reynslulausn?

Ég sendi eftirfarandi grein á http://www.bb.is/, http://www.skutul.is/ og http://www.visir.is/ :

 

Ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að heimila Ágústi Magnússyni, dæmdum rað-barnaníðingi, að halda utan til náms í biblíuskóla sænska sértrúarsafnaðirns Livets Ord hefur skapað mikla umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu. Andri Ólafsson , blaðamaður hjá Vísi skrifaði fyrstur um málið og vakti þar með athygli almennings og létu margir í sér heyra í kjölfarið.

Bloggarar, þar á meðal ég, fóru mikinn og fordæmdu margir þessa ákvörðun. Ég ákvað strax að leita svara um það hvernig þetta kom til, í stað þess að sitja með hendur í skauti. Hafði ég áhyggjur af skólafélögum Ágústs sem og börnum sem sækja skóla hjá sama söfnuði. Ég reyndi strax að ná sambandi við einhvern í skólanum sem Ágúst sækir, en aldrei svaraði síminn. Ég náði hins vegar sambandi við stofnunina sjálfa og talaði þar við konu sem kom algjörlega af fjöllum. Virtist hún ekki hafa hugmynd um að þessi maður væri í skólanum. Ég gaf henni upplýsingar um hvað hann hefði verið dæmdur fyrir, að hann hefði brotið af sér í afplánun og að hann væri einn alræmdasti barnaníðingur Íslands. Hún sagðist ætla að biðja einhvern frá skólanum að hringja í mig. Það hefur ekki verið gert. Einnig hef ég reynt að hringja út aftur en enginn hefur svarað.

Þá setti ég mig í samband við blaðamanninn sem skrifaði fréttina, Andra, og spurði hann hvaðan hann hefði upplýsingar um að Ágúst byggi hjá fjölskyldu sem ætti tvö börn. Sagðist hann hafa það eftir skólastjóranum sjálfum. Seinna kom það í ljós að fjölskyldan ætti bara tæplega tvítugan son. Andri sagði jafnframt að margt sem hann hefði sagt skólastjóranum um Ágúst hefði komið honum á óvart og í ljósi upplýsinganna sagðist skólastjórinn líklega myndu tala við fjölskylduna. Skólastjórinn virtist hafa vitað af fortíð hans en það virtust vera takmarkaðar upplýsingar. Talaði blaðamaðurinn um að skólastjórinn virtist ekki hafa vitað að Ágúst hefði brotið af sér í afplánun, hve marga drengi hann hefði misnotað og svo framvegis.

Eftir þetta samtal hafði ég samband við Írisi Eik, félagsráðgjafa Ágústs hjá Fangelsismálastofnun. Ég spurði hana meðal annars hvort fordæmi væru fyrir að menn á reynslulausn fengju að fara utan? „Jájájá," svaraði Íris.

Þá spurði ég hvernig eftirliti með Ágústi væri háttað, sérstaklega þar sem ég las á heimasíðu Fangelsismálastofnunar að þeim bæri lagaleg skylda til að hafa eftirlit með mönnum á reynslulausn. Sagði hún mér þá að yfirvöld í viðkomandi löndum vissu af veru þessarra manna og mikið eftirlit væri haft með þeim, sérstaklega kynferðisafbrotamönnum. Þegar ég spurði hana hvort eitthvað væri til í því að Ágúst byggi hjá fjölskyldu með tvö börn sagðist hún ekki geta svarað neinu um einstaka skjólstæðinga en bætti því við að ég ætti ekki að trúa öllu sem kæmi fram í þessari frétt. Ég spurði hana þá hvort við gætum treyst því að eftirlit væri haft með honum og ef hann væri á leið inn á heimili þessarar fjölskyldu, myndi hún vita af því. Já sagði hún, og bætti við að með honum væri meira eftirlit en mig grunaði.

Eigum við, almenningur sem hefur áhyggjur af börnunum okkar og börnum annarra, að láta þessi svör nægja? Við höfum lesið í  fréttum að skólastjóri barnaskóla Livets Ord hafi ekki haft hugmynd um veru Ágústs á svæðinu og væri verulega áhyggjufullur.  Einnig setti blaðamaður sig í samband við yfirvöld í Uppsölum sem virtust ekki hafa hugmynd um málið. Skólafélagar Ágústs vissu ekki af fortíð hans, né nokkur annar. Nema skólastjórinn og Fangelsismálastofnun.

Nú veit ég hreinlega ekki hverjum maður á að trúa. Blaðamanninum sem hafði þetta eftir skólastjóranum eða félagsráðgjafanum sem segir að þau hafi meira eftirlit með Ágústi en okkur grunar.

Meginástæða þess að ég skrifa hér er sú að ég var að lesa grein Erlu Kristínar Árnadóttur, lögfræðings Fangelsismálastofnunar, og fékk ég það á tilfinninguna að hún skildi ekki alveg þær umræður sem hún telur byggðar að stórum hluta á „rangfærslum og misskilningi." Hún talar um að umræðan verði að vera fagleg og að staðreyndir málsins verði að koma fram. Jafnframt tekur hún fram að Fangelsismálastofnun geti ekki tjáð sig um einstaka fanga. Fer hún mikinn i því að fjalla um gagnsemi reynslulausnar.

Við sem gagnrýnum þessa ákvörðun FMS erum ekki að setja út á það að fangar fái reynslulausn. Alls ekki. Það sem við erum að gagnrýna er að maður sem hefur verið dæmdur hefur verið fyrir að misnota sex unga drengi kynferðislega, hefur viðurkennt að hafa misnotað a.m.k. átta til viðbótar, hefur brotið af sér í afplánun, brotið af sér í gegnum árin í sínu kirkjulega starfi og er þar að auki talinn vera einn alræmdasti barnaníðingur á Íslandi, fái yfirleitt reynslulausn og leyfi til þess að halda utan.

Erla segir í grein sinni „Fangelsismálastofnun getur veitt fanga reynslulausn þegar hann hefur afplánað helming refsitímans eða 2/3 hluta hans. Við mat á því er m.a. litið til alvarleika brotsins, sakarferils og hegðunar í afplánun"

Braut Ágúst ekki af sér á meðan afplánun stóð?

Við fordæmum það einnig að Fangelsismálastofnun heimili að Ágúst fari af landi brott í notalegan biblíuskóla, í stað þess að halda honum hér heima þar sem mun betra eftirlit væri haft með honum. Ég tala nú ekki um þá staðreynd að hér á landi þekkja flestir útlit hans og gjörðir og geta því frekar varið börnin sín. Í Svíðþjóð er ekki hið sama uppi á teningnum.

Erla segir: „Einnig er hægt að binda reynslulausnir þeim skilyrðum að menn sæti umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar..."

Hversu gott er eftirlit Fangelsismálastofnunar þegar maðurinn er nú staddur erlendis?

Sorglegast þykir mér að vita að þegar mál Ágústs var fyrir dómstólum lögðu sérfræðingar sem höfðu haft hann til meðferðar fram þá kröfu að hann yrði vistaður á öryggisstofnun að afplánun lokinni. Töldu þessir sérfræðingar að hann væri haldin ólæknandi barnagirnd og því þyrfti að vera STÖÐUGT eftirlit með honum. Því miður var kröfunni hafnað. Einu sinni áður hefur verið þessa verið krafist; þegar mál Steingríms Njálssonar var tekið fyrir. Þá var kröfunni einnig hafnað.

Hvernig væri að yfirvöld færu að nýta þessa heimild í lögunum? Að við sem fullorðnir einstaklingar sættum okkur ekki við að kynferðislegt ofbeldi eigi sér stað? Að Fangelsismálastofnun myndi standa sína plikt og hefði ítarlegt eftirlit með Ágústi Magnússyni, hér á landi?

Ætlar Fangelsismálastofnun virkilega að bíða með að birgja brunninn þangað til börnunum hefur verið hrint í hann?

 

Höfundur er starfskona Sólstafa Vestfjarða, samtaka sem berjast gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gló Magnaða

Flott hjá þér Harpa - Ég er stolt af þér

Gló Magnaða, 15.9.2008 kl. 15:27

2 Smámynd: Dísa Dóra

Flott grein hjá þér skvís

Dísa Dóra, 15.9.2008 kl. 18:11

3 identicon

Góð Harpa

Ágústa (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 20:35

4 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

takk snúllur

Harpa Oddbjörnsdóttir, 16.9.2008 kl. 09:42

5 Smámynd: Arndís Baldursdóttir

Vel skrifað hjá þér stelpa, þú ert svo hæfileikarík, maður er bara stoltur af að þekkja þig.

Arndís Baldursdóttir, 16.9.2008 kl. 14:39

6 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

Flott, mig langar til að vita hvernig þeir geti vitað það að hann sé hættur!!!!??

Ótrúlega fljótir að komast að því

Halla Signý Kristjánsdóttir, 16.9.2008 kl. 19:28

7 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

það er nefnilega það, skv. sérfræðingum sem höfðu hann til meðferðar á meðan málaferlum stóð er hann haldinn ólæknandi barnagirnd og getur því varla verið hættur. farið var fram á öryggisgæslu að afplánunn lokinni en því var hafnað. Afhverju veit ég ekki.....

Harpa Oddbjörnsdóttir, 17.9.2008 kl. 01:47

8 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Glæsileg grein Harpa, stórglæsileg!

Hjördís Þráinsdóttir, 17.9.2008 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Harpa Oddbjörnsdóttir
Harpa Oddbjörnsdóttir

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 91764

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband